Nýjast á Local Suðurnes

70 kærðir fyrir of hraðan akstur við grunnskóla

Í dag fóru grunnskólarnir af stað eftir sumarfrí og sinnti lögregla eftirliti með hraða bifreiða á Skólavegi í Keflavík, í grennd við Holtaskóla. Hraðaeftirlitið stóð frá upphafi skóladags og fram á síðdegi. Á þessum tíma voru um 70 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur eftir að brot þeirra höfðu verið mynduð.

Lögreglan bendir á, líkt og áður, að rík ástæða er fyrir því að hámarkshraði í grunnskóla- og íbúðahverfum er 30 km/klst. Líkurnar á banaslysi eru 10% þegar ekið er á gangandi vegfaranda á 30 km/klst, en hækka í 85% þegar hraðinn er kominn í 50 km/klst. Ökumenn eru því hvattir til að sýna aðgát og virða hámarkshraða. Lögregla mun halda þessu eftirliti áfram og verður eftirlit við alla grunnskóla á Suðurnesjum í vetur.