Nýjast á Local Suðurnes

Einkaþjálfarar frá Keili fá evrópska vottun

Europe Active stofnunin, sem hefur umsjón með gæða- og vottunarmálum einkaþjálfara og líkamsræktarstöðva í Evrópu, hefur gæðavottað nýtt einkaþjálfaranám Keilis undir heitinu Nordic Fitness Education (NFE). Í tilkynningu þeirra kemur fram að um sé að ræða fyrsta einkaþjálfaranámið á alþjóðavísu sem samtökin viðurkenna sem er í 100% fjarnámi.
Arnar Hafsteinsson, forstöðumaður Íþróttaakademíu Keilis, segir í tilkynningu að samtökin hafi vottað námið þar sem skólinn hafi góða reynslu af fjarnámsframboði, auk þess sem námsefnið og fyrirkomulag þess uppfyllir stranga gæðastaðla þeirra.
„Áður hafði Europe Active veitt náminu vottun sem tilraunaverkefni, en nú hafi stofnunin gengið skrefið til fulls og er námið nú að fullu vottað af þeim. Þetta er í fyrsta skipti sem stofnunin vottar nám sem er eingöngu boðið upp á í fjarnámi. Þetta er því mikil viðurkenning fyrir Keili og einkaþjálfaranám NFE,“ segir Arnar.
Á síðasta ári hlaut ÍAK einkaþjálfaranámið sem Keilir hefur boðið upp á hérlendis undanfarinn áratug sömu viðurkenningu Europe Active. Stofnunin hefur þar með veitt gæðastimpil á öllu einkaþjálfaranámi Keilis.
Með gæðavottuninni verða útskrifaðir einkaþjálfarar úr bæði ÍAK einkaþjálfaranámi Keilis og Nordic Personal Trainer Certificate (NPTC) einkaþjálfaranámi NFE náminu framvegis skráðir í EREPS (European Register of Exercise Professionals) gagnagrunn Europe Active og öðlast þar með evrópska vottun á færni sinni.