Nýjast á Local Suðurnes

Mikill meirihluti leigusamninga verða endurnýjaðir

Mikill meirihluti leigusamninga í þeim níu fjölbýlishúsum á Ásbrú sem eitt stærsta leigufélag landsins, Heimavellir, hafa sett í söluferli verða eða hafa þegar verið endurnýjaðir. Um er að ræða 154 íbúðir og verða allir samningar endurnýjaðir að 30 undanskildum.

Fyrirtækið tilkynnti um fyrirhugaða sölu í tilkynningu til Kauphallarinnar í gær og í kjölfarið sköpuðust umræður um málið á samfélagsmiðlum. Suðurnes.net ræddi við nokkra íbúa sem búa í umræddum fjölbýlishúsum og voru svörin við spurningum um hvort fólki hafi verið sagt upp leigusamningum nokkuð mismunandi, sumir sögðu að samningum hafi ýmist verið sagt upp eða þeir ekki endurnýjaðir á meðan aðrir sögðu samninga hafa verið endurnýjaða.

Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdarstjóri Heimavalla sagði í svari við fyrirspurn Suðurnes.net að allir samningar að frátöldum 30 yrðu endurnýjaðir, en þar er um að ræða mjög stórar íbúðir sem möguleiki væri á að breyta. Það væri kaupanda íbúanna að ákveða.

“Við erum að endurnýja alla samninga nema vegna 30 íbúða í þremur húsum. Ástæðan er sú að viðkomandi íbúðir eru mjö stórar og henta því vel til að breyta hverri í tvær íbuðir. Það verður svo ákvörðun kaupanda hvort að íbúðunum verði breytt eða ekki.” Sagði Guðbrandur.