Nýjast á Local Suðurnes

Harma að ráðist sé opinberlega gegn einstökum starfsmönnum

Viðauki við fjárhagsáætlun Sandgerðishafnar var samþykktur á fundi bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar á fundi hennar í gær, en um er að ræða viðauka upp á 8,5 milljónir króna vegna viðbótar stöðugildis við Sandgerðishöfn. Málið hefur valdið nokkrum deilum í bæjarráði þar sem fulltrúi H-lista telur ekki þörf á stöðugildinu og að áformin geti ekki gengið upp fjárhagslega.

Fulltrúi H-lista lagði fram harðorða bókun vegna málsins á fundi bæjarráðs í lok janúar,  þar sem meðal annars segir að Hafnarsjóður ráði ekki við að greiða auka stöðugildi. Bókun H-listans má sjá neðst í fréttinni.

Bæjarstjórn lagði fram eftirfarandi bókun á fundi sínum í gær, en þar harma bæjarfulltrúar D- og J-lista að H-listinn velji þann kost að ráðast opinberlega gegn einstökum starfsmönnum sveitarfélagsins með þeim hætti sem gert er með framangreindri bókun á fundi bæjarráðs.

Bókun meirihluta bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar vegna málsins:

Á 16. fundi bæjarráðs var til afgreiðslu tillaga um viðauka vegna viðbótar stöðugildis við Sandgerðishöfn. Í greinagerð sem fylgdi tillögunni kom fram að höfnin hafi verið undirmönnuð og því nauðsynlegt að fjölga um einn starfsmann til að minnka álag á starfsmenn og setja upp eðlilegt vaktaplan til að geta veitt þá góðu þjónustu sem við viljum að höfnin sé þekkt fyrir.

Með ráðningunni sparast m.a. kostnaður vegna starfsmanns við afleysingar o.fl. Þá skapast aukið svigrúm fyrir hafnarstjóra að vinna að sínum verkefnum, m.a. að markaðssetja höfnina og afla henni aukinna viðskipta eins og til stóð við ráðningu hafnarstjóra. Mikilvægt er að auka tekjur hafnarinnar og til þess að svo megi vera er nauðsynlegt að skapa svigrúm til þess.

Í bókun H-lista við málið á 16. fundi bæjarráðs er fullyrt að starfsmaður sveitarfélagsins sé ekki að sinna daglegum störfum sínum. Það er almennt algerlega óviðunandi að bæjarfulltrúi fari með þessum hætti gegn starfsmanni sveitarfélagins. Hafi bæjarfulltrúar athugasemdir um störf einstaka starfsmanna sveitarfélagsins má koma því á framfæri við bæjarstjóra.

Bæjarfulltrúar D- og J-lista harma að H-listinn velji þann kost að ráðast opinberlega gegn einstökum starfsmönnum sveitarfélagsins með þeim hætti sem gert er með framangreindri bókun á fundi bæjarráðs.

Bókun H-lista á bæjarráðsfundi þann 23. janúar:

Sandgerðishöfn er með áætlaðar tekjur í fjárhagsáætlun fyrir rekstrarárið 2019 þar sem markaðssetning núverandi stjórnar um auknar tekjur koma fram. Þeim tekjum hefur þegar verið fundinn staður í rekstrinum fyrir árið 2019.

Nú er verið að óska eftir einu stöðugildi til viðbótar við Sandgerðishöfn og að fjármagna það líka með auknum tekjum uppá 8,5 milljónir en það kemur ekkert fram hvernig á að ná þessum auka tekjum nema aðeins að það sé forgangsmál að auka tekjur á árinu sem framundan er. Svo virðist sem nýráðinn hafnarstjóri eigi ekki að ganga vaktir og leysa úr þeim álagstoppum sem upp koma. Hafnarstjóri hefur verið starfandi í á þriðja mánuð og er ekki enn farinn að vinna að daglegum störfum innan hafnarinnar. Kannski er hans eina starf markaðssetning og að auka tekjur hafnarinnar.

Það er mat H-listans að þessi áform geti ekki gengið upp fjárhagslega. Hafnarsjóður ræður einfaldlega ekki við að greiða fjögur stöðugildi. Þessa starfsemi er hægt að leysa með þremur stöðugildum og greiðir H-listinn því atkvæði á móti því að auka stöðugildi í fjögur við Sandgerðishöfn.