Nýjast á Local Suðurnes

Sýndu samfélagslega ábyrgð með að færa ekki byrðar yfir á ríkið

Stéttarfélagið Sameyki gagnrýndi rekstraraðila Keflavíkurflugvallar, Isavia, harðlega í tilkynningu sem félagið sendi frá sér í gær í kjölfar uppsagna fyrirtækisins á 101 starfsmanni í fyrradag.

Þar segir meðal annars að það vekji furðu að rök Isavia fyrir því að nýta ekki úrræði ríkisins séu þau að með því séu þeir að sýna samfélagslega ábyrgð.”Stjórn Sameykis bendir á að ábyrgð fyrirtækisins er fyrst og fremst gagnvart starfsfólki þess og samfélaginu sem það býr í. Isavia hefur sagt upp yfir hundrað manns, en með að nýta úrræði ríkisins hefðu þær uppsagnir geta orðið töluvert færri. Starfsmenn Isavia skipa mikilvægan sess í grunnstoðum samfélagsins og því er mikilvægt að standa vörð um störf þeirra. Með uppsögnunum tapast mikil þekking og reynsla. Þetta fólk stendur nú frammi fyrir atvinnuleysi, engu ráðningarsambandi og óvissu ofan á allt annað sem gengur á í samfélaginu. ¬Þessar aðgerðir setja fjöldann allan af fólki í mjög erfiða stöðu á þessum óvissutímum.” Segir meðal annars í yfirlýsingu stéttarfélagsins.

Forstjóri Isavia svarar þessu í tilkynningu frá félaginu, en þar segir meðal annars:

“Isavia vill þvert á móti freista þess að halda þeim starfsmönnum sem verða fyrir skammtímaáhrifum vegna Covid-19, í fullum störfum og greiða þeim full laun meðan verið er að komast í gegnum þennan erfiða tíma og sýna þannig samfélagslega ábyrgð með því að færa ekki þær byrðar yfir á ríkið næstu mánuði.“