Nýjast á Local Suðurnes

Samþykkja samning við Laugar

Atvinnu- og hafnarráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt samning við Laugar ehf. vegna lóðar við Fitjar og falið sviðsstjóra að undirrita hann. Stefnt er að opnun 8400 fermetra líkamsræktarstöðvar og hótels á svæðinu auk sjobaðsaðstöðu.

Björn Leifsson, eigandi Lauga sagði í viðtali við mannlif.is fyrr á árinu að um væri að ræða World Class stöð, 2400 fermetra baðlón og heilsuhótel. Þess utan verður sjóbaðsaðstaða með gufu og heitum pottum á svæðinu sem er við sjóinn í grennd við Fitjar í Reykjanesbæ.

Björn segir nýja heilsuhótelið hafa gríðarlega mikla þýðingu, hann segir að um 100 manns fái vinnu við starfsemina og þá sé ekki búið að taka inn í reikninginn þau umsvif sem verða á framkvæmdatímanum. Hann á von á því að Íslendingar sæki í nýja lónið ekki síður en erlendir ferðamenn. Þá kom fram í máli Björns að kostnaður við verkefnið væri um 10 milljarðar króna.