Nýjast á Local Suðurnes

161 vísað frá á landamærum í flugstöðinni – Metár í fölsunarmálum

Verkefnum flugstöðvardeildar í mörgum málaflokkum fjölgaði á milli ára 2017 og 2018. Þetta kemur fram í ársskýrlu lögreglunnar á Suðurnesjum, en í tilkynningu segir að athygli veki gífurleg aukning í fjölda frávísana á landamærunum.

Frávísanir voru alls 161 árið 2018, en voru 54 árið á undan. Aukningin er því um 200%. Frávísun er beitt þegar einstaklingur uppfyllir ekki skilyrði fyrir komu inn á Schengen svæðið. Í flestum tilvikum, eða 142, var ástæða frávísunar vöntun á vegabréfsáritun.

Árið 2018 fjölgaði verkefnum vegabréfarannsóknastofunnar verulega frá árinu áður. Árið varð metár í fölsunarmálum í flugstöðinni sjálfri en auk þess varð gríðarleg fjölgun á beiðnum frá öðrum embættum og stofnunum. Samtals 98 skilríkjamál komu upp á árinu. Enn eitt árið er því sett met hvað varðar fjölda slíkra mála, en árið 2017 var fjöldi skilríkjamála í flugstöðinni 92. Talsverð breyting er á tegund fölsunar og skilríkja sem koma við sögu á milli ára. Grunnfölsun er algengust á árinu 2018 en breytifölsun árið á undan. Þá ber meira á kennivottorðum árið 2018 en árið áður.

Flestir þeirra sem gripnir voru með ólögmæt skilríki í FLE árið 2018 komu til landsins frá Danmörku, Spáni, Þýskalandi og Ungverjalandi.