Nýjast á Local Suðurnes

Gul eldgosaviðvörun og útbreiðsla nýrrar kórónaveiru – Þetta er verið að gera á Keflavíkurflugvelli

Isavia er í góðu sambandi við Almannavarnir og Veðurstofuna og fær upplýsingar þaðan um stöðu mála vegna kvikusöfnunar við Þorbjörn. Litakóði alþjóðaflugs fyrir eldfjöll á Reykjanesskaga var færður á gult eftir að lýst yfir óvissustigi vegna landriss og mögulegrar kvikusöfnunar vestan við fjallið Þorbjörn.

Það að færa litakóða fyrir flug á gult hefur engin áhrif á flugfarþega og veldur ekki röskunum á flugi. Þar er heldur ekki um að ræða að gripið sé til sérstakra aðgerða eða ráðstafana,“ sagði Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, í samtali við Vísi.

„Við hjá Isavia erum í góðu sambandi við Almannavarnir og Veðurstofuna og fáum upplýsingar þaðan um stöðu mála. Isavia hefur áður brugðist við aðstæðum vegna eldgosa og hefur áætlanir um slíkt sem hefur verið unnið eftir í fyrri eldgosum og sem hafa verið æfðar síðan þá. Komi til þess verða þær virkjaðar.

Þetta þýðir aukið eftirlit með eldstöð, sem við fáum upplýsingar um frá Almannavörnum og Veðurstofu, og aukna upplýsingagjöf milli viðbragðsaðila og Isavia. Þá er einnig um að ræða aukna upplýsingagjöf frá Isavia til flugrekenda og þjónustuaðila. Við fylgjumst því vel með þróun mála,“ sagði Guðjón ennfremur.

Varðandi kóróna veiruna munu farþegar á Keflavíkurflugvelli sem koma til landsins fá skilaboð þess eðlis að ef þeir eru með merki um öndunarfærasýkingu og hafa verið í Wuhan Kína á undangengnum 14 dögum eða hafa verið í samgangi við einstaklinga með grunaða eða staðfesta sýkingu, þá þurfi að gera á þeim læknisfræðilegt mat á Keflavíkurflugvelli. Framhald aðgerða ræðst af læknisfræðilegu mati en einangrun mun koma til greina.

Einnig verða einkennalausir farþegar sem hafa verið í Wuhan Kína á undangengnum 14 dögum eða verið í samgangi við einstaklinga með grunaða eða staðfesta sýkingu beðnir um að gefa sig fram. Þessir einstaklingar geta vænst þess verða settir í sóttkví í einhverja daga.

Þessar aðgerðir miða að því að finna sýkta og hugsanlega smitaða einstaklinga sem fyrst og forða þannig frekari útbreiðslu innanlands.

Ekki er talin ástæða til að hitamæla alla farþega eða leggja fyrir þá spurningalista á Keflavíkurflugvelli því slíkar aðgerðir hafa reynst bæði kostnaðarsamar og árangurslitlar.