Nýjast á Local Suðurnes

Foreldrafélög leik- og grunnskóla lýsa yfir þungum áhyggjum af mengun

Foreldrar barna í leikskólanum Heiðarseli og Heiðarskóla lýsa yfir þungum áhyggjum af mengun frá kísilveri Sameinaðs Sílikons hf. í Helguvík við bæjarráð Reykjanesbæjar. Bréf frá foreldrafélögum skólanna, ásamt leiðréttingu var lagt fyrir ráðið í gær.

Skólastjórnendur og fræðsluyfirvöld í Reykjanesbæ fylgjast grannt með gangi mála og munu vera í góðu í sambandi við Umhverfissstofnun og Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja, sem hefur umsjón með hollustuháttum í leik- og grunnskólum á svæðinu.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum sýna niðurstöður samstarfsnefndar um sóttvarnir að stykur arsens í nágrenni kísilverksmiðjunnar í Helguvík sé langt undir þeim mörkum sem talin eru valda bráðum alvarlegum heilsuspillandi áhrifum. Þá er talið að galli hafi verið í mælingu Orkurannsókna í mælistöð þeirra í Helguvíks sem sýndi hátt hlutfall arsens í andrúmslofti.

Í bréf foreldrafélaganna til bæjarráðs segir: „Við lýsum yfir þungum áhyggjum af mengun frá kísilveri Sameinaðs sílikons hf. í Helguvík. Heiðasel og Heiðarskóli, ásamt hluta byggðar í Reykjanesbæ, eru staðsettir á svokölluðu þynningarsvæði verksmiðjunnar. Samkvæmt skýrslu Umhverfisstofnunnar virðist gildi arsens, sem er eitrað efnasamband, langt yfir þeim mörkum sem gefin eru upp í mati á umhverfisáhrifum, eða allt að tuttugufalt meira. Í þessu ljósi taka stjórnir foreldrafélaga skólanna undir með bæjarstjórn Reykjanesbæjar, og telja óásættanlegt annað en að starfsemi kísilversins verði stöðvuð á meðan úrbætur á mengunarvörnum fara fram.
Okkur er umhugað um velferð nemenda og starfsfólks skólanna. Samfélagið á ætíð að njóta vafans gagnvart mögulegri heilsufarslegri skaðsemi.“