Nýjast á Local Suðurnes

Aðstandendur hugi að eldri borgurum

Starfsfólk félagsþjónustu Suðurnesjabæjar  hefur staðið vaktina síðustu vikur til að mæta þeim miklum áskorunum sem velferðarþjónustan stendur frammi fyrir á þessum krefjandi tímum.

Þjónustustofnunum hefur verið lokað eða þjónusta skert og þar með nauðsynlegt að útbúa einstaklingsmiðaðar lausnir fyrir þjónustuþega. Félagsstarf aldraðra í Miðhúsum og Auðarstofu hefur verið lokað síðan 9. mars og skammtímavistun fyrir börn í Heiðarholti einnig.

Starfssemi heimaþjónustunnar hefur haldist nánast óskert en þar er félagslegri heimaþjónustu sinnt ásamt aðstoð við búðarferðir, öryggisinnlit og heimsendan mata alla virka daga. Boðið verður upp á heimsendan mat um páskana.

Starfsfólk hefur síðustu daga og vikur unnið að því að hringja í þjónustuþega til að fylgjast með stöðu mála og líðan.

Þessa dagana er starfsfólk að sinna úthringiverkefni sem snýr að því að hringja í alla eldri borgara 85 ára og eldri í Suðurnesjabæ og Vogum.

Suðurnesjabær hvetur eldri borgara til að huga vel að næringu sinni, hreyfingu og svefn á þessum tíma. Þá eru fjölskyldur hvattar til að standa saman og aðstandendur aldraðra til að huga vel að þeim.

Félagsráðgjafar sinna viðtölum í síma og í fjarfundum og hægt er að hafa samband í síma 425-3000 eða á netfang sveitarfélagsins afgreidsla@sudurnesjabaer.is