Nýjast á Local Suðurnes

Kanalausir Njarðvíkingar töpuðu gegn botnliðinu

Erlend og innlend lið hafa áhuga á að fá Hauk Helga í sínar raðir

Hött­ur lagði Njarðvíkinga, 86-79, í íþrótta­hús­inu á Eg­ils­stöðum í Dominos-deildinni í kvöld. Þetta var fyrsti sigur Hattar á tímabilinu.

Njarðvíkingar mættu kanalausir til leiks á Egilsstöðum en ekki hafði tekist að fá atvinnuleyfi fyrir nýjan leikmann liðsins, Michael Craig. Leikurinn var jafn og spennandi frá upphafi en Njarðvíkingum gekk illa að stöðva Tobin Car­berry sem fór mikinn í leiknum, staðan að loknum fyrsta leikhluta var 27-21 heimamönnum í vil.

Njarðvíkingar tóku sig á í öðrum leikhluta og léku stífa pressuvörn síðari hluta leiklutans með Hauk Helga í farabroddi  og náðu forystunni rétt fyrir leikhlé, 42-43.

Þriðji leikhluti var sveiflukenndur en Hattarmenn höfðu frumkvæðið og náðu að slíta Njarðvíkinga frá sér, þrátt fyrir að þeri væru aldrei langt undan. Höttur hafði tíu stiga forskot eftir þriðja leikhluta, 64-54.

Njarðvíkingum gekk illa að ráða við Tobin Car­berry í fjórða leikhluta og hann fór mik­inn fyr­ir Hött á lokakafl­an­um, sýndi mikla skynsemi, fiskaði vill­ur, fékk vítaskotin og setti þau niður, lokatölur 86-79. Carberry lék hverja einustu sekúndu í leiknum og skoraði tæplega helming stiga liðsins eða 40.

Logi Gunnarson var stigahæstur Njarðvíkinga með 17 stig, Baginski skoraði 16, Hjörtur Hrafn skoraði 13 og hinn nýji bakvörður Njarðvíkinga Oddur Kristjánsson skoraði 12.

Njarðvíkingar sem hefðu getað skotið sér í þriðja sæti deildarinnar með sigri í kvöld sitja í sjötta sætinu ásamt nokkrum öðrum liðum eftir 12 umferðir.