Nýjast á Local Suðurnes

Aukin ánægja á meðal farþega þrátt fyrir mikla aukningu og framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli

Hlynur Sigurðsson framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Keflavíkurflugvallar fór yfir þær aðgerðir sem Isavia hefur staðið í til þess að taka við auknum fjölda farþega um Keflavíkurflugvöll í sumar, á morgunfundi sem fyrirtækið stóð fyrir á dögunum.

Í máli Hlyns kom fram að meðal annars verður 7.000 fermetra stækkun tekin í notkun í ár með tvöfalt stærri landamærasal og stórbættu biðsvæði með verslunar- og veitingaþjónustu í suðurbyggingu.

Hlynur sýndi einnig niðurstöðu samræmdra þjónustukannana sem framkvæmdar eru af Alþjóðasamtökum flugvalla (ACI) og eru framkvæmdar á fjölda flugvalla um allan heim. ACI könnunin sýnir að þrátt fyrir 40% fjölgun farþega árið 2016 tókst starfsfólki á Keflavíkurflugvelli að bæta þjónustuna sem er eftirtektarverður árangur.

Að lokum kynnti Hlynur þá nýjung að opnað verður fyrir innritun á miðnætti fyrir morgunflug. Með þessu móti er talið að hægt sé að minnka álagið í innritun að morgni. Næturopnunartíminn verður til reynslu í júní.