Nýjast á Local Suðurnes

Fá sérstaka viðurkenningu fyrir hreinlæti á Covid-tímum

Keflavíkurflugvöllur er í hópi með 15 öðrum flugvöllum í Evrópu sem hljóta sérstaka viðurkenningu Alþjóðasamtaka flugvalla (ACI) fyrir hreinlæti á síðasta ári.

Í síðasta ársfjórðungi  2020 bættu Alþjóðasamtök flugvalla (ACI) þessum nýja verðlaunaflokki við þjónustukönnun sína. Þar er metin upplifun farþega af öryggi- og hreinlæti á viðkomandi flugvöllum og þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til eftir að heimsfaraldur Covid-19 hófst. Þar mældist Keflavíkurflugvöllur í hópi efstu 25% flugvalla í Evrópu sem farþegar töldu hafa gripið til bestu hreinlætis- og öryggisaðgerða í tengslum við baráttuna gegn Covid-19.

Þjónustukönnun ACI, Airport Service Quality programme (ASQ), er virtasta og marktækasta mælingin sem gerð er á gæðum þjónustu á flugvöllum. Við gerð könnunarinnar eru farþegar á flugvöllum um allan heim spurðir staðlaðra spurninga um 34 þjónustuþætti. Því er um samræmdan og yfirgripsmikinn samanburð að ræða, bæði á milli flugvalla og ára. Könnunin er gerð á 348  flugvöllum um allan heim, þar af 115 í Evrópu. Keflavíkurflugvöllur er á meðal 38 flugvalla í sínum stærðarflokki (5-15 milljónir farþega).

„Á þessum erfiðu tímum heimsfaraldurs höfum við á Keflavíkurflugvelli hlustað á viðskiptavini okkar og með góðu samstarfi við heilbrigðisyfirvöld gripið til nauðsynlegra aðgerða til að tryggja hreinlæti og öryggi fyrir okkar viðskiptavini,“ segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia. „Það er afskaplega gott að sjá að þeir farþegar sem hafa farið um flugvöllinn á síðasta ári eru ánægðir með þær aðgerðir sem við höfum gripið til. Þetta sýnir með skýrum hætti að starfsfólk Isavia og samstarfsaðila á Keflavíkurflugvelli hefur unnið mjög gott starf við erfiðar aðstæður á síðasta ári.“

Auk viðurkenningar fyrir hreinlæti er Keflavíkurflugvöllur þriðja árið í röð á meðal þeirra flugvalla í Evrópu í sínum stærðarflokki sem veita bestu þjónustuna samkvæmt könnun ACI.

Guðmundur Daði segir að viðurkenningin sé kærkomin enda hafi allt starfsfólk á flugvellinum lagt sig fram við að veita góða þjónustu, náð að halda góðum tengingum og hlustað á viðskiptavini flugvallarins og eigi miklar þakkir skildar fyrir framlag sitt á erfiðum tímum.

„Þessi viðurkenning er jafnframt gott innlegg inn í þær framkvæmdir sem er verið að ráðast í á Keflavíkurflugvelli. Með hlutafjáraukningu í félaginu, sem tilkynnt var um nýverið, munum við hafa burði til að halda áfram að fjárfesta í bættri upplifun á flugvellinum fyrir viðskiptavini okkar,“ segir Guðmundur Daði. „Allt verður það í samræmi við langtíma áætlanir félagsins.“

Á þessu ári séu í undirbúningi útboð vegna viðbygginga á Norður- og Suðurbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar sem muni bæta við yfir 10.000 fermetrum við flugstöðina sem styrki enn frekar samkeppnishæfni flugvallarins. Nánar má lesa um fyrirhugaðar framkvæmdir hér.

ACI hefur nú tilkynnt um niðurstöðurnar en stefnt er að því að veita verðlaunin formlega á alþjóðlegri þjónusturáðstefnu á vegum samtakanna í Kraká í Póllandi síðar á þessu ári. Nánari upplýsingar um þjónustuverðlaun ACI er að finna hér.