Nýjast á Local Suðurnes

Niðurrif sundhallar samþykkt í bæjarstjórn – “Ekkert sérstaklega áfjáður í því að rífa þetta hús”

Niðurrif gömlu sundhallarinnar við Framnesveg var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar í gær. Niðurrifið var samþykkt með atkvæðum allra bæjarfulltrúa utan Margrétar Sanders sem sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

Í umræðum um málið kom fram að meirihluti bæjarstjórnar teldi málið hafa verið faglega unnið og innan þeirra laga sem unnið er eftir í málum sem þessum. Margrét Sanders, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, sagði málið strax í upphafi hafa verið mikið hitamál þar sem fólk skiptist í tvær fylkingar, með eða á móti. Í máli hennar kom einnig fram að hún telji að fleirri mál af þessu tagi muni koma upp í framtíðinni og að setja þurfi skýrari reglur um meðferð slíkra mála.

Friðjón Einarson, fulltrúi Samfylkingar varði ákvörðun meirihlutans í þessu máli og sagðist “ekki vera áfjáður í því að rífa þetta hús,” en að farið hafi verið að öllu eftir settum reglum auk þess em veittir hafi verið allir þeir frestir sem óskað var eftir.

Guðbrandur Einarsson, fulltrúi Beinnar leiðar, tók undir með Friðjóni og sagði málið hafa verið faglega unnið, hann sagði mun stærri mál bíða bæjarfulltra á þessu kjörtímabili og nefndi kísilver í Helguvík sem dæmi.

Umræður um málið má finna hér og hefjast þær á 42. mínútu.