Mikilvægt að þjónustuveitendur séu vakandi og bregðist skjótt við breyttum aðstæðum
Grindavíkurbær tók þátt í árlegri könnun Gallup á þjónustu meðal 19 sveitarfélaga á Íslandi. Sveitarfélagið hækkaði á flestum stigum á milli ára, en betur má ef duga skal að mati bæjarstjórans Rórberts Ragnarssonar, en hann ritaði grein um það sem betur má fara í sveitarfélaginu í fyrsta tölublað fréttabréfs Grindavíkurbæjar, Járngerði.
Í grein Róberts kemur fram að um 2.000 ferðamenn fari um bæinn daglega og að mikilvægt sé þjónustuveitendur í vaxandi sveitarfélagi eins og Grindavík séu vakandi fyrir óskum og þörfum viðskiptavina sinna og bregðist skjótt við í breyttum aðstæðum, það hafi þó ekki gengið eftir í öllum tilfellum.
“Undirritaður hefur átt fundi og símtöl með nokkrum þjónustuaðilum í bænum og óskað eftir breytingum á þjónustunni. Bæði vöruframboði og opnunartíma. Skemmst er frá að segja að Nettó brást vel við þeim óskum og hefur þegar aukið opnunartíma og gert breytingar í versluninni. Vínbúðin hefur jafnframt tilkynnt að í sumar verði gerð tilraun með aukinn opnunartíma á föstudögum og laugardögum. Mikið hefur verið kvartað yfir því að þjónusta olíufélaganna sé lítil og vöruframboð takmarkað. Olíufélögin hafa því miður ekki enn verið tilbúin að bæta þá þjónustu við íbúa og ferðamenn, þó þau séu í gríðarlega miklum viðskiptum við útgerðarfélög í Grindavík. Við íbúar verðum að standa saman um að þrýsta á þá aðila sem ekki standa sig, um að bæta þjónustuna.” Segir í grein Róberts