Nýjast á Local Suðurnes

Vilja gera Tesla bifreið upptæka eftir slys – Andvirðið renni í ríkissjóð

Myndin tengist fréttinni ekki beint

Magnús Ólafur Garðarsson, einn af stofnendum United Silicon og fyrrverandi forstjóri verksmiðjunnar, hefur verið ákærður af Héraðssaksónara fyrir almannahættubrot og líkamsárás af gáleysi með ofsaakstri á Tesla-bifreið í desember síðastliðnum. Magnús er grunaður að hafa valdið árekstri á Reykjanesbraut, með þeim afleiðingum að einn maður slasaðist.

Þetta kemur fram á vef RÚV, en þar er einnig greint frá því að maður sem slasaðist í árekstrinum krefji Magnús um eina milljón króna í skaðabætur. Þá er Magnús einnig ákærður fyrir ofsaakstur á sama bíl nokkrum mánuðum fyrr. Málin tvö voru við það tilefni sameinuð í eitt. Magnús fékk frest til að taka afstöðu til sakarefnisins.

Héraðssaksóknari krefst þess að Magnús verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaður og að hann verði sviptur ökuréttindum. Þá er þess krafist að Tesla-bíllinn verði gerður upptækur í ríkissjóð, sem er heimilt þegar um sérstaklega vítaverðan akstur er að ræða.