Nýjast á Local Suðurnes

Ekkert til sparað á árshátíð Reykjanesbæjar – Bæjarsjóður leggur til á fimmtu milljón

Landslið tónlistarmanna, uppistandara og annara skemmtikrafta mun koma fram á árshátíð Reykjanesbæjar sem haldin verður þann 25. febrúar næstkomandi. Bræðurnir Jón Jónsson og Friðrik Dór, diskóboltinn Páll Óskar og uppistandarinn Ari Eldjárn munu verða á meðal þeirra sem skemmta á hátíðinni sem fram fer í Hljómahöll, en allir salir hallarinnar verða notaðir undir hátíðina og verða skemmtikraftar og veitingar í boði í hverjum sal.

Samkvæmt heimildum Suðurnes.net mun kostnaðurinn, við þetta árlega skemmtikvöld starfsfólks Reykjanesbæjar og maka þeirra vera áætlaður um níu milljónir króna, þar af er kostnaður við veitingar áætlaður um fimm milljónir króna og kostnaður við skemmtikrafta áætlaður á þriðju milljón króna. Áætlaðar tekjur af miðasölu eru rétt tæplega 4,5 milljónir króna og áætlað er að framlag bæjarsjóðs hljómi upp á svipaða tölu.

Suðurnes.net hefur undir höndum kostnaðaráætlun, en skjáskot af henni má finna hér fyrir neðan, sem hljómar upp á tæpar níu milljónir króna. Tómas Young, formaður árshátíðarnefndar staðfesti að áætlaður kostnaður við árshátíðina hljómi upp á þessa tölu, í spjalli við Suðurnes.net, en tók fram að um áætlun væri að ræða og að endanlegur kostnaður lægi ekki fyrir fyrr en að hátíðinni lokinni – Kostnaðurinn gæti því orðið minni eða meiri, en það fer meðal annars eftir því hversu margir gestir mæti á hátíðina.

Auk ofangreindra skemmtikrafta verða kræsingar í hverju horni, en matseðillinn samanstendur af réttum frá öllum heimshornum auk þess sem ísvagn frá einni vinsælustu ísbúð landsins, Valdísi, verður staðsettur inni í Hljómahöll.

Hér fyrir neðan má sjá kynningarmyndband um árshátíð Reykjanesbæjar, en þar kemur meðal annars fram hvaða skemmtikraftar koma fram á hátíðinni.

arsh rnb17