Nýjast á Local Suðurnes

Teknir í fíkniefnaviðskiptum – Vildu fá peninginn til baka frá lögreglu

Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði fíkniefnaviðskipti sem voru í gangi á salerni veitingastaðar í umdæminu fyrir stuttu síðan. Lögreglan segir frá viðskiptunum á Facebook-síðu sinni en frásögnina má sjá hér fyrir neðan.

Þegar lögreglumenn bar að voru tveir menn þar fyrir. Hélt annar þeirra á glærum poka. Sá tók sprettinn að salerninu, þegar hann varð lögreglunnar var og er talið að hann hafi náð að losa sig við eitthvað af fíkniefnum í klósettið. Hinn maðurinn kvaðst hafa verið að kaupa “stöff” af pokamanninum. Þeir heimiluðu báðir leit á sér og fannst ekkert saknæmt á þeim fyrrnefnda, en fíkniefni fundust á þeim síðarnefnda. Meðan lögreglumenn voru við störf á vettvangi margbað kaupandinn þá að láta sig hafa fimm þúsund krónurnar sem hann hefði verið búinn að greiða pokamanninum fyrir “stöffið” sem sturtað var niður þegar lögregla setti viðskiptin í uppnám.