Nýjast á Local Suðurnes

Bonneau sleit hásin í hægri fæti – Stendur til boða að vera áfram í Njarðvík

Stefan Bonneau náði aðeins að spila tæplega fjórar mínútur með Njarðvíkingum gegn Stjörnunni í kvöld áður en hann fór meiddur af velli. Bonneau var að spila sinn fyrsta leik í úrvalsdeildinni eftir að hafa slitið hásin í vinstri fæti á undirbúningstímabilinu í haust, hann hafði áður spilað um stundarfjórðung með B-liði Njarðvíkur fyrir nokkrum misserum og staðið sig vel, miðað við að hafa ekkert leikið í um hálft ár.

Bonneau náði ekki að skora á þeim tæplega fjórum mínútum sem hann lék í kvöld en hann tók eitt frákast og átti eina stoðsendingu.

Gunnar Örlygsson, formaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur staðfesti í samtali við Vísi.is í kvöld að Bonneau væri með slitna hásin í hægri fæti.

„Ég fékk þær fréttir af spítalanum áðan að Stefan er með slitna hásin í hinum fætinum,“ sagði Gunnar þegar Vísir heyrði í honum í kvöld. „Það er eins sorglegt og það getur orðið, miðað við það ferli sem hann hefur verið í að undanförnu.“

„Þetta er ótrúlega svekkjandi. Maður er bara orðlaus. Hann var tilbúinn enda hefði hann aldrei farið í búning öðruvísi, án þess að fá grænt ljós frá sjúkraþjálfara. Það er ekkert við þá að sakast.“

Þá sagði Gunnar við Vísi að Bonneau stæði til boða að vera áfram í Njarðvík.

„Við viljum taka fram að okkur þykir jafn vænt um þennan fót og hinn. Við munum taka strákinn að okkur og hlúa að honum, alveg eins og áður,“ segir Gunnar.