Nýjast á Local Suðurnes

Heimilt verður að rífa nokkur hús við Hafnargötu samkvæmt nýju deiliskipulagi

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt deiliskipulagstillögu fyrir svæði sem afmarkast af Hafnargötu, Suðurgötu, Skólavegi og Vatnsnesvegi. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar mun að öllum líkindum samþykkja tillöguna á fundi sínum á morgun og í framhaldinu senda deiliskipulagstillöguna til Skipulagsstofnunar til endanlegrar afgreiðslu.

Tillagan var kynnt hagsmunaaðilum á vinnslustigi. Húseigendur sem eiga fasteignir á svæðinu sem skipulagið nær yfir voru upplýstir um að farið verði í deiliskipulagsvinnu og óskað væri samráðs og í framhaldinu var haldinn fundur með hagsmunaaðilum. Tillagan var auglýst tímabilið 4. júlí til 22. ágúst 2019 og haldinn var opinn íbúafundur þann 20. ágúst. Ein skrifleg athugasemd barst á auglýsingatíma.

Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að tvö hús við Hafnargötu verði fjarlægð og ný hús komi í staðinn, Hafnargata 48 og Hafnargata 56, en bæði húsin eru í slæmu ásigkomulagi. Þá er heimild, samkvæmt tillögunni að fjarlægja eða byggja við hús númer 48a, 52, 54 og 58 við Hafnargötu, auk þess er heimilað niðurrif á nokkrum skúrum við Suðurgötu.

Þá fær Gamli Barnaskólinn, byggður árið 1911, að standa enda húsið friðlýst samkvæmt lögum um húsafriðun. Húsið situr á stórri lóð sem teygir sig frá Suðurgötu og að Hafnargötu. Kvöð er þó um almenna aksturs- og gönguleið á lóð.