Rán í apóteki við Hringbraut – Tveir handteknir

Lögregla handtók tvo einstaklinga um klukkan 22 í gærkvöld, vegna ráns sem framið var í apóteki við Hringbraut. Ránið var framið um kl. 18.30 í Apóteki Suðurnesja á Hringbraut 99 í Reykjanesbæ. Lýsti lögreglan í kjölfarið eftir manni í þverröndóttum bol og víðum gallabuxum.
Leitaði allt lögreglulið umdæmisins að manninum í gærkvöld.
Lögreglan á Suðurnesjum hefur lítið viljað tjá sig um ránið, ekki hefur verið gefið upp hverju var rænt og þá vildi lögregla ekki greina frekar frá þeim sem voru handteknir eða hvernig handtökurnar komu til. Á vef mbl.is er haft eftir lögreglu að maðurinn sem handtekinn var hafi verið vopnaður.