Keflavíkursókn fær á annan tug milljóna króna árlega eftir ákvörðun Kirkjuþings
Kirkjuþingi 2017 lauk á laugardaginn, en á meðal þess sem tekið var fyrir á þinginu var hvort Hlíðahverfi, sem staðsett er á Nikkel-svæðinu svokallaða, gamla vallarsvæði Bandaríkjahers, yrði látið tilheyra Keflavíkursókn eða skiptast á milli Keflavíkur- og Ytri-Njarðvíkursóknar.
Þingið samþykkti að nýtt Hlíðarhverfi í Reykjanesbæ skuli að öllu leyti tilheyra Keflavíkursókn í stað þess að skiptast á milli þeirrar sóknar og Ytri-Njarðvíkursóknar.
Gert er ráð fyrir um 1.100 íbúum í fullkláruðu Hlíðarhverfi og eru greiddar um 11.000 krónur í sóknargjöld árlega fyrir hvern meðlim trúfélags sem þar er skráður 1. desember. Fullbúið Hlíðarhverfi gæti því skilað þeirri sókn sem hverfið tilheyrir rúmlega 12 milljónum króna árlega.