Ásakanir Kaffitárs á hendur Isavia eru mjög alvarlegar

Tilkynning Isavia í heild sinni:
Í grein Morgunblaðsins í dag er vitnað í bréf sem Kaffitár sendi eftirlits- og stjórnskipunarnefnd Alþingis. Málið varðar forval vegna veitinga- og verslunarrýmis í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Isavia hefur ekki fengið afrit af bréfinu sem fjallað er um en í greininni eru margar rangfærslur frá fulltrúum Kaffitárs og hafa þær flestar verið leiðréttar áður. Ekki verður farið yfir alla þá þætti í þessu svari en til dæmis er það rangt að samið hafi verið við aðila á grundvelli tilboðs sem barst eftir að frestur rann út, talað er um að Lagardere hafi einokunarstöðu en benda má meðal annars á að í sumar var opnað nýtt rými fyrir veitingasölu sem úthlutað er til skemmri tíma og fyrstu sex mánuði var fyrirtæki sem selur sambærilegar vörur og Lagardere og því í beinni samkeppni við fyrirtækið. Látið er að því liggja að gögnum hafi verið haldið eftir en það er ekki rétt því Isavia hefur veitt Kaffitári aðgang að öllum gögnum málsins og meiri gögnum en upplýsingalög kveða á um. Hins vegar var strikað yfir viðkvæmar viðskiptaupplýsingar í takt við bréf Samkeppniseftirlitsins um að gögnin innihéldu viðkvæmar upplýsingar sem óheimilt væri að dreifa á milli samkeppnisaðila.
Verslunar- og veitingasvæðið í Flugstöð Leifs Eiríkssonar er eftirsótt svæði og komast færri að en vilja. Vegna þess að eftirspurnin er meiri en framboðið heldur Isavia valferli um þau svæði sem í boði eru. Valferlið er að erlendri fyrirmynd og fer fram á sama hátt og á fjölda evrópskra flugvalla. Erlent ráðgjafafyrirtæki sem hefur áratugareynslu í að velja rekstraraðila á verslunar- og veitingasvæði flugvalla var fengið til ráðgjafar við ferlið auk þess sem fulltrúi þess átti sæti í dómnefnd.