Nýjast á Local Suðurnes

Bílar teknir að fjúka og vegir lokaðir

Bílar eru farnir að fjúka á Ásbrú, að sögn Ólafs Helga Kjartanssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum, í viðtali við RÚV. Þá hefur eitthvað verið um foktjón og meðal annars hefur fokið þak og veggur af húsi í Vogunum að sögn Ólafs.

Gluggar hafa einnig brotnað og Ægisgata í Reykjanesbæ er lokuð vegna þess að þar gengur sjór á land og grjót fylgir með því.

Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi var lokað um klukkan 5 í nótt þar sem mjög hvasst var á vegum og blindbylur. Suðurstrandavegi var einnig lokað og eru allir þrír vegirnir enn lokaðir.