Nýjast á Local Suðurnes

Friðrik Ingi hættir með Njarðvík – Óvíst hver tekur við

Friðrik Ingi Rúnarsson hefur látið að störfum sem þjálfari meistaraflokka Njarðvíkur. Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur og Friðrik Ingi hafa komist að samkomulagi um starfslok Friðriks Inga eftir yfirstandandi tímabil. Friðrik Ingi hefur þjálfað bæði karla- og kvennalið Njarðvíkur síðastliðin tvö keppnistímabil.

“Sjálfur var Friðrik ekki ákveðinn um framhaldið enda vita allir sem til körfuboltans þekkja að starf þjálfara í íslenskum körfuknattleik er ekki ofarlega á blaði þegar að launakjörum kemur. Starfið er fyrir vikið vanþákklát sem í tilfelli Friðriks er grátlegt enda hæfur þjálfari sem leggur ávallt allt sitt í verkefni líðandi stundar.

Breytingarnar sem nú fara fram eru gerðar í bróðerni og er það von mín að Friðrik komi áfram að þjálfun í yngri flokkum félagsins, þá í hlutastarfi. Tíminn verður að leiða það í ljós hvort það henti Friðriki Inga á þessum tímamótum. Ef af slíku samstarfi yrði væri það félaginu okkar til mikils happs.” segir Gunnar Örlygsson formaður KKD UMFN í tilkynningu.

Nú standa yfir samningaviðræður við leikmenn félagsins en stefna deildarinnar er að halda áfram öflugu starfi þar sem þungi og kraftur er lagður í að byggja upp öfluga leikmenn. Það mun vonandi skýrast innan tíðar hver mun taka við keflinu af Friðrik Inga.