Nýjast á Local Suðurnes

Ósáttir við orð ráðherra varðandi nauðungarsölu

Ljósmynd: Reykjanesbær.is / OZZO

Dómsmálaráðherra ræddi stöðu öryrkja sem missti hús sitt á nauðungaruppboði í Reykjanesbæ í kvöldfréttum RÚV og sagði meðal annars að sýslumaður hafi gert allt sem hann gat. Ábyrgðin á málinu lægi fyrst og fremst hjá gerðarbeiðanda, Reykjanesbæ.

Guðbrandur Einarsson, alþingismaður og fyrrverandi bæjarfulltrúi og Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar eru ósáttir við ummæli ráðherra.

Bæði Guðbrandur og Friðjón segja skoðun sína á orðum ráðherra í færslum á Facebook og bendir Guðbrandur á að sveitarfélögum beri að innheimta skuldir, að öðru leiti færu þau væntanlega á hausinn. Friðjón segir ráðherra skjóta fyrst og spyrja svo, eitt stutt símtal og hún hefði fengið betri yfirsýn yfir málið.

Færsla Friðjóns í heild:

Fréttir kvöldsins. Nýr dómsmálaráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir, fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis, byrjar fyrstu vinnuvikuna á röngunni. Harmsaga fjölskyldunnar í Reykjanesbæ, sem missti húsið sitt á uppboði, er Reykjanesbæ að kenna, að hennar sögn. það hefði verið gott ef ráðherra hefði tekið stutt símtal og fengið allar upplýsingar um málið hjá heimamönnum. Þá hefðí hún fengið þá yfirsýn sem henni var nauðsynleg í stað þess að skjóta fyrst og spyrja svo. En auðvelt að slá sig riddara á annarra manna kostnað.

Guðbrandur hafði þetta um málið að segja:

Sveitarfélagi ber á öllum tímum að innheimta álögð gjöld. Ef við það væri ekki staðið myndi Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga gera athugasemd við slíka stjórnsýslu.
Sveitarfélagið verður einnig á öllum tímum að gæta jafnræðis milli íbúa.

Nýr dómsmálaráðherra sagði í kvöldfréttum RÚV að hún sæi ekki neina sök hjá sýslumanni í því hörmungarmáli sem hefur verið stóra fjölmiðlamálið að undanförnu. Sýslumaður hafði þó lagalega heimild til að hafna tilboðinu og láta endurtaka það.
Ráðherrann minnti einnig á í þessari frétt að eigandinn hefði haft sex vikur til þess að greiða skuldina og þá hefði salan fallið niður.

Hún sér hins vegar ástæðu til þess að sneiða að sveitarfélaginu þegar hún segir „að sveitarfélagið er gerðarbeiðandi þannig að ábyrgðin liggur þar fyrst og síðast“.

Er nýskipaður dómsmálaráðherra að leggja til að sveitarfélag leggi ekki fram innheimtubeiðni, eins og því ber að gera lögum samkvæmt, þegar um vanskil er að ræða?
Ætli flest sveitarfélög færu ekki ansi fljótt á hausinn ef að það verður hinn nýi veruleiki.

Reykjanesbær bað aldrei um að umrædd fasteign yrði seld á undirverði og hafði enga vitneskju um það.