Nýjast á Local Suðurnes

Fækkun flóttafólks gæti tekið langan tíma

Langan tíma getur tekið að fækka umsækjendum um alþjóðlega vernd sem nýta búsetuúrræði Vinnumálastofnunar í Reykjanesbæ, samkvæmt aðgerðaáætlun Vinnumálastofnunar og Reykjanesbæjar sem kynnt var í gær.

Um 1.100 manns dvelja nú í Reykjanesbæ í búsetuúrræðum á vegum Vinnumálastofnunar, samkvæmt skýrslu sem fylgir áætluninni, en stefnt er að því að fækka þeim niður í um 750 og ekki er gert ráð fyrir að þeim fjölgi umfram þá 1.100 sem þegar nýta búsetuúrræðin á tímabilinu sem áætlunin nær yfir.

Settar eru upp þrjár sviðsmyndir í áætluninni um það hvernig þessi mál gætu mögulega þróast og sé miðað við bestu mögulegu sviðsmyndina gæti fjöldinn orðið um 750 manns í nóvember á næsta ári, en fækkun myndi þá hefjast í maí á næsta ári og fjöldinn fara undir 1.000 manns.

Í öllum sviðsmyndum er gert ráð fyrir að um 1.100 manns verði í úrræðum á vegum Vinnumálastofnunar í Reykjanesbæ fram á næsta ár. Versta mögulega sviðsmyndin gerir ráð fyrir að fjöldinn haldist óbreyttur út apríl árið 2025.

Hér fyrir neðan má sjá hvernig málin gætu mögulega þróast samkvæmt aðgerðaáætlun Vinnumálastofnunar og Reykjanesbæjar.