Nýjast á Local Suðurnes

Samstarfssamningur um endurbætur á Vatnsnesvegi 8 – Gæti orðið “Höfði” Reykjanesbæjar

Reykjanesbær og Steinþór Jónsson fyrir hönd KEF ehf. hafa undirritað samstarfssamning um endurbætur og nýtingu á Vatnsnesvegi 8 sem sveitarfélagið fékk í dánargjöf frá Bjarnfríði Sigurðardóttur árið 1974.

Í erindi, sem fylgdi tilboði í fasteignina, kemur fram að tilboðsgjafi sé reiðubúinn til viðræðna við sveitarfélagið á þeim forsendum sem lýst er í auglýsingu.

Vísað var til þess að væntingar þeirra lúta að því að hægt verði að eiga með sér samstarf um lagfæringar á útliti og umhverfi hússins. Fram kom vilji til þess að tengja atvinnustarfsemi í nágrenninu við Vatnsneshúsið með hellulögn svo að þjónusta og endurbætur fari saman. Var óskað eftir viðræðum um það hver nýting húsnæðisins gæti verið fyrir Steinþór, atvinnufyrirtæki í nágrenninu og samfélagið allt.

Tillaga Steinþórs miðaði við að húsið yrði notað sem móttökusvíta, fundarherbergi eða sýningarsalur. Jafnvel kaffihús með léttum veitingum og gæti verið ,,Höfði“ Reykjanesbæjar þar sem stærri fundir og móttökur gætu farið fram. Nýting sem þessi myndi því samhliða geta verið lítið byggðasafn, sögusýning hússins sem og bæjarfélagsins og annarra þátta sem myndu tengjast í tíma og rúmi.

Í erindinu kemur fram að það sé vilji til að halda sögu hússins í heiðri og í þeim anda sem eigendur hússins höfðu í huga þegar þeir afhentu húsið til Keflavíkurbæjar. Öllum beri saman um að Vatnsnes hefur verið eitt glæsilegasta hús bæjarins og staðsetning þess sé einstök. Að mati Steinþórs er mikilvægt að halda stílnum og þeim arkitektúr að mestu leyti eins og það var upprunalega hannað og byggt.

,,Fjölskyldan mín hefur verið með starfsemi á móti þessu þekkta húsi nú þegar í tæp 50 ár, eða frá 13 febrúar 1972, og höfum því sterkar taugar til hússins og umhverfisins í heild. Því má segja að endurbætur á Vatnsnesi er aðeins lítill hluti af þeirri framtíðarsýn sem við höfum fyrir svæðið í heild. Ég hef þegar viðrað hugmyndir að nýta Vatnsnesið fyrir framtíðarferðaþjónustu, þar sem húsið væri miðpunktur umhverfisins en í kring færi fram starfsemi sem myndi draga til sín innlenda og erlenda ferðamenn sem og bæjarbúa. Við sjáum fyrir okkur tengingu við sjávarleiðina og frekari útsýnissvæði frá Vatnsnesinu auk þess sem við teljum að Básvegurinn sjálfur eigi að vera hugsaður sem lifandi ferðamannaþjónusta og götulíf eins og best þekkist í öðrum bæjarfélögum á Íslandi. Því tengdu hefur undirritaður nú þegar verið í sambandi við aðila um að skoða möguleika á glæsilegri aðstöðu fyrir sjóböð og heitar laugar við básinn með einstöku útsýni yfir Faxaflóann og Bergið, í mikilli nálægð við flest stærstu gistihús og þjónustu bæjarins. Teikningar og hugmyndir þessu tengdu myndu koma á okkar umræðufundi.“

Með samstarfssamningnum geta loksins nauðsynlegar endurbætur farið fram á Vatnsneshúsinu og húsið tekið í notkun í kjölfarið. Samkvæmt kaupsamningi sem undirritaður var samhliða samstarfssamningnum verður KEF ehf., einkahlutafélag Steinþórs Jónssonar, eigandi að 49% hluta fasteignarinnar (mannvirki án lóðarréttinda).

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, lýsti við undirritunina yfir ánægju sinni að þetta mál sem hefur í mjög langan tíma verið í óvissu sé nú komið í góðan farveg og Reykjanesbær bindi miklar vonir við að húsinu og gefendum þess verði nú sýnd sú virðing sem það/þau eiga skilið.