Nýjast á Local Suðurnes

Ólíklegt að Árni Sigfússon fari gegn Ragnheiði Elínu í Suðurkjördæmi

Árni Sigfússon - Mynd: Rúv

Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins leita Sjálfstæðismenn á Suðurlandi logandi ljósi að frambjóðanda sem gæti verið nógu sterkur til að fella Ragnheiði Elínu Árnadóttur úr oddvitasæti listans og hafa nöfn Árna Sigfússonar fyrrverandi bæjarstjóra Reykjanesbæjar og Elliða Vignissonar bæjarstjóra í Vestmannaeyjum verið nefnd í því sambandi.

Árni gaf lítið fyrir þessar pælingar í spjalli við suðurnes.net, sagðist hafa meiri áhuga á öðrum hlutum en alþingi í augnablikinu, auk þess sem hann ritaði langan pistil á Facebook-síðu sinni, þar sem hann fer yfir þau mál sem Ragnheiður Elín hefur unnið að í ráðherratíð sinni.

Þá segir Árni í pistlinum að honum finnist eins og það megi ráðast harðar og fastar á konur sem sinna stjórnmálum og á það að mati Árna jafnt um konur í hans flokki og öðrum flokkum.

Pistill Árna í heild sinni:

Um verk Ragnheiðar Elínar sem ráðherra:

Þegar unnið er við dýpkunarframkvæmdir í höfn, sjá íbúar lítinn árangur ef þeir horfa bara á sjóinn í höfninni. Þetta þekkja Eyjamenn jafnt sem Suðurnesjamenn – Þeir sem horfa bara á yfirborðið kvarta „það er ekkert að gerast“- Undir yfirborðinu hefur þó orðið stórbreyting; með dýpkun hafnarinnar er skipum gert kleift að færa til hafnar afla, fólk og nauðsynjar líkt og í Eyjum, allt flugvélaeldsneyti í Helguvík, sem undirstöðu ferðaþjónustunnar, allt hráefni til og frá vegna framleiðsluverkefna.

Mér verður hugsað til þessa þegar ég sé undirbúning Ragnheiðar Elínar, sem ráðherra, í fjölmörgum málaflokkum sem að henni snúa. Það þarf jú að undirbúa verkefnin, áður en afrakstur þeirra sprettur fram. Á þeim tíma eru verkin ósýnileg og sumir kvarta og segja ekkert vera að gerast. Það er stundum erfitt að standast slíkt og hlaupa ekki fram með óundirbúin verk. En þeir sem standast það, sjá loks árangur, verkin spretta fram eitt af öðru. Og þá skilja menn samhengið. Þannig sé ég vandaða vinnu REA frá því hún tók við embætti ráðherra.

Líklega er skýrasta dæmið um þetta nýr Vegvísir í ferðaþjónustu sem leit dagsins ljós í október 2015. Hann er afrakstur mikillar stefnumótunarvinnu ráðuneytisins og Samtaka ferðaþjónustunnar sem hófst 2014, með því að heildarúttekt var gerð á starfsumhverfi og regluverki fyrir ferðaþjónustuna. Fjöldi funda um allt land og um eitt þúsund þátttakendur leiddu fram mikinn samhljóm um áherslur í Vegvísinum.
Með Nýja vegvísinum og nýrri Stjórnstöð ferðamála hefur aðgerðum nú verið hrint af stað sem snúa að endurbótum margra staða, löggæslu, upplýsingamálum og öryggi á ferðamannastöðum og vegum. REA beitti sér fyrir því að 1,8 milljörðum hefur verið varið í sérstakar átaksúthlutanir 2014 -2016 í vernd og uppbyggingu ferðamannastaða um land allt. Menn segja helst að það sé ekki nóg og hún samsinnir því – en mikilvægt að hafa í huga að eftir að hún tók við þessu verkefni hefur orðið bylting í aðgerðum.

Ragnheiður Elín hefur unnið að einföldun regluverks í atvinnulífinu og bættu starfsumhverfi fyrirtækja stórra sem smárra. Rafrænar gáttir hafa verið auknar og styrktar til einföldunar á öllum gagnaskilum og ferlar skýrðir og einfaldaðir í umsóknaskóginum, sem allir þekkja sem sinna atvinnurekstri.

Fleiri ólík mál má nefna:
Stefnumótun varðandi jarðstrengi og loftlínur hefur verið unnin og er forsenda nauðsynlegrar styrkingar á flutningskerfi raforku. REA lagði fram á Alþingi skýrslu nefndar um mótun stefnu um lagningu raflína í jörð og því fylgt eftir með því að Alþingi hefur nú mælt fyrir um hvaða viðmið og meginreglur skuli höfð að leiðarljósi þegar ákvarðanir eru teknar um hvort leggja skuli rafmagnsstrengi í jörð eða með loftlínum. Áður bar Landsneti að velja fjárhagslega hagkvæmasta kostinn hverju sinni. Nú er einnig heimilt að horfa til öryggis- og umhverfisþátta og annarra hagsmuna. Jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku í dreifbýli og þéttbýli og niðurgreiðslu húshitunar á köldum svæðum er loksins komin í höfn.
Ný aðgerðaráætlun hefur verið sett fram sem eflir enn frekar umgjörð frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtækja í landinu.
Lög um endurgreiðslur vegna kostnaðar við gerð kvikmynda hér á landi hafa verið framlengd í ljósi skýrslu sem REA lagði fram um hagræn áhrif kvikmyndaendurgreiðslna hér á landi.
REA hefur fylgt þeirri skoðun sinni eftir með framkvæmd að einstaklingum eigi að vera kleift að leigja út heimili sín og frístundahús tímabundið ár hvert með einföldu skráningarformi án þess að allt fari á annan endann í dýrum reglugerða- og eftirlitsfrumskóginum.

Hún hefur einnig lagt áherslu á að atvinnustarfsemi framtíðarinnar þarf að byggja á fleiru en hefðbundnum greinum okkar ef við eigum að tryggja áfram sambærileg lífskjör og í nágrannalöndunum. Því er nýsköpunar- og þróunarstarfsemi afar mikilvæg og því mjög ánægjulegt að sjá sterkan stuðning við eflingu t.d. Tækniþróunarsjóðs. Hann hefur verið efldur verulega með alls 2,5 milljarða kr. til úthlutunar á þessu ári. Þá hefur REA skipað stýrihóp um mótun hugverkastefnu fyrir Ísland. Hún hefur gegnt formennsku í norrænu ráðherranefndinni um atvinnumál og nýsköpun og verið fengin til að kynna norræna samstarfsáætlun á sviði nýsköpunar og atvinnumála.

Auk þessara gríðarlega mikilvægu verkefna, bæði vandaðs undirbúnings og framkvæmdar, má ekki gleyma að í tíð REA hafa aldrei áður verið gerðir jafn margir fjárfestingasamningar sem stuðla að öflugri uppbyggingu margvíslegs iðnaðar á Íslandi. Þar skal nefna fjárfestingarsamning um byggingu og rekstur kísilvers á Bakka við Húsavík, og tvö kísilver í Helguvík, Silicor á Grundartanga, líftæknifyrirtækið Algalíf að Ásbrú í Reykjanesbæ og fiskeldisfyrirtækið Matorku í Grindavík.

Þá má ekki gleyma því að REA hafði látið fara fram vandaðan undirbúning að stuðningi við uppbyggingu hafnar í Helguvík, líkt og gert hafði verið af fyrri ríkisstjórn við Bakka á Húsavík. Hún hafði kynnt áform um lagafrumvarp þar sem gert var gert ráð fyrir 1,6 milljarða kr. framlagi, sem núverandi bæjarstjórn Reykjanesbæjar afþakkaði og vildi fara aðra leið. Sú leið er enn ekki fundin.

Einhverjar fréttir hafa verið um að nú leiti menn að arftaka REA, því ekki hafi allt gengið eftir sem hún hefur barist fyrir! Eftir framangreinda yfirferð mína á því sem ég hef séð frá REA – Er ekki einu sinni sanngjarnt að halda því fram að lítið sjáist á yfirborðinu þótt „dýpkunarframkvæmdir“ hafi verið á fullu. Svo mörg skip hafa verið leidd í höfn! Allt þetta hefur henni tekist að gera í góðum hópi fólks og alltaf með hressilegu yfirbragði.
Detti því einhverjum í hug að ég vilji velta Ragnheiði Elínu úr sessi sem ráðherra og pólitískum leiðtoga á Suðurlandi, er það mjög vanhugsað. Verkin hennar tala skýru máli.

Stundum finnst mér eins og enn sé alvarleg kynjaskekkja í þeirri persónupólitík sem birtist í umfjöllun fólks og fjölmiðla. Það er eins og það megi ráðast harðar og fastar á konur sem sinna stjórnmálum. Í mínum flokki koma upp nöfn Hönnu Birnu, Þorgerðar Katrínar og nú síðast Ólafar Nordal. Ég get nefnd Steinunni Valdísi og Ingibjörgu Sólrúnu úr öðrum flokkum og enn fleiri. Allir þessir einstaklingar hafa lagt mikið af mörkum og við ættum að standa með þeim í stað þess að rífa þá niður. Allavega vil ég ekki vera bendlaður við slíkt.