Lava Restaurant á norrænum topplista
Lava Restaurant í Grindavík hefur verið valinn á lista White Guide Nordic árið 2017, en um er að ræða yfirgripsmikinn leiðarvísi yfir norræna matreiðslu.
Umfjöllun í White Guide Nordic þykir mikill heiður í veitingabransanum en leiðarvísirinn hefur um 80 matargagnrýnendur á sínum snærum. Sextán íslenskir veitingastaðir eru á listanum og er Lava Restaurant sá eini af Suðurnesjum sem kemst á listann.
White Guide Nordic tekur fyrir veitingastaði í Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð, auk Færeyja, Grænlands og Svalbarða. Í nýjustu útgáfu leiðarvísisins, sem kemur út þann 26. júní næstkomandi, verður fjallað um 341 veitingastað.