Nýjast á Local Suðurnes

Keilir í samstarf við Arctic Adventures um leiðsögunám

Keilir hefur undirritað samkomulag við Arctic Adventures um samstarf og aðkomu þeirra að leiðsögunámi í ævintýraferðamennsku sem skólinn hefur starfrækt í samstarfi við Thompson Rivers University (TRU) síðan haustið 2013.

Samstarfið snýr að aðgengi nemenda námsins að sérhæfðum búnaði til flúðasiglinga og jöklaferða, auk þess sem samstarf verður milli aðilanna við kennslu og undirbúning námskeiða. Þá munu Arctic Adventures bjóða útskrifuðum nemendum námsins upp á möguleika til starfa á sviði ævintýraferðmennsu sem fullt starf enda eru mikil atvinnutækifæri fyrir faglega menntaða ævintýraleiðsögumenn innan greinarinnar.

Afþreyingarferðamennska er meðal þeirra greina ferðaþjónustunnar sem vex hvað hraðast hér á landi og eru mikil atvinnutækifæri innan greinarinnar bæði hérlendis og erlendis. Leiðsögunám Keilis og TRU í ævintýraferðamennsku tekur átta mánuði og fer um helmingur námsins fram víðsvegar um landið.

arctic adventures2

Enn er hægt að skrá sig til náms í leiðsögunámi í ævintýraferðamennsku.

Áhersla er lögð á verklega nálgun á vettvangi í náttúru Íslands, til að mynda í sjókajaknámskeiði á Breiðfirðinum, við flúðasiglingar á Hvítá eða við klifur á Svínafellsjökli. Að hámarki eru teknir inn um tuttugu nemendur árlega og hafa þeir verið mjög eftirsóknarverðir starfskraftar innan greinarinnar að námi loknu, en auk þess hafa nemendur úr náminu haldið áfram háskólanámi við TRU.

Samstarf Keilis og Arctic Adventures var undirritað af Arnari Hafsteinssyni, forstöðumanni Íþróttaakademíu Keilis og Styrmi Þór Bragasyni, framkvæmdastjóra Arctic Adventures, en hann væntir mikils af samstarfinu. „Það er mjög mikilvægt að fólk með áhuga á útivist og ferðaþjónustu sæki sér í auknu mæli menntunar á því sviði“ segir Styrmir.

„Við höfum ráðið til okkar nýútskrifaða nemendur úr náminu og höfum góða reynslu af þeim starfmönnum og þeirri þjálfun sem þeir hafa hlotið í náminu. Við munum áfram leitast eftir að bjóða nýútsrifuðum nemendum framtíðarstarf hjá Arctic Adventure, Glacier Guides og Trek Iceland, sem í dag er stærsta ævintýraferðaþjónustu fyrirtæki landsins.“

Þriðji árgangur nemenda í leiðsögunámi í ævintýraferðamennsku hefur nám í lok ágúst næstkomandi og er enn hægt að sækja um í námið. Nánari upplýsingar má nálgast hér.