Stefnir á kvikmyndahátíðir með Zombie Island í haust
Marteinn Ibsen hefur framleitt kvikmynd í fullri lengd með hjálp ættingja og vina
Marteinn Ibsen kvikmyndagerðarmaður hefur undanfarin ár unnið að gerð kvikmyndar í fullri lengd, Zombie Island. Vinnsla við myndina er nú á lokametrunum og vonast Marteinn eftir að koma henni á kvikmyndahátíðir í haust.
Zombie Island er þjóðfélagsádeila og er saga minnislauss manns rakin þar sem hann gengur inn í samfélag sem er gjörsamlega farið á hausinn. Uppvakningar eru á víð og dreif og að sjálfsögðu finnst fólk á lífi hér og þar og safnar hetjan eftirlifendum með sér í lið.
Nær allir sem koma að myndinni eru Suðurnesjamenn en með helstu hlutverk fara þau Guðmundur Ingvar Jónsson, Halldór Jón Björgvinsson, Þórunn Guðlaugsdóttir og Hlynur Þór Valsson. Í öðrum smærri hlutverkum má nefna Þór Jóhannesson, Rúnar Jóhannesson og Bergþór Haukdal Jónasson.
Mikill fjöldi aukaleikara er í myndinni sem bæði uppvakningar og fórnalömb. Rúmlega 200 manns komu að gerð myndarinnar á einhvern hátt með því til dæmis að lána bíl eða opna hús, búa til tæknibrellur eða sviðsmynd. Og að sjálfsögðu má ekki gleyma förðuninni, en hún er svolítið misjöfn í gegnum myndina þar sem fimm snillingar sáu um þann hluta á mismunandi tímum gegnum framleiðsluna.
Marteinn sagði í samtali við Local Suðurnes að verkefnið hafi verið strembið, „Zombie Island hefur verið í framleiðslu síðan 2012. Tökur gengu vel í fyrstu en síðan fór skipulagið út um gluggann þar sem leikarar komust ekki á sama tíma og endurskrifa þurfti nokkur atriði.“
„Sá sem átti að sjá um hljóðupptökur frá byrjun mætti aldrei þannig að það var aldrei neinn ákveðinn hljóðmaður, hver sem stóð næst hljóðbúnaðinum þegar taka átti upp atriði sá um hljóðið. Ég held að flest allir leikararnir hafi verið hljóðmenn á einhverjum tímapunkti við þessar tökur,“ sagði Marteinn léttur í bragði.
„Einnig þurfti að endurskrifa myndina í klippiherberginu þar sem ekki gafst tími til að taka allt upp eins og það var sett upp í handritinu þannig að nýjar senur voru skrifaðar, tökudagur skipulagður með góðum fyrirvara og svo skotið. Tökur voru í gangi fram í nóvember 2014 samhliða klippingu.“ Sagði Marteinn.
Nú er myndin full klippt og litaleiðrétt með takmörkuðum tæknibrellum og um þessar mundir er verið að vinna hljóð og tónlist en að sögn Marteins er hljóðvinnslan nokkuð erfið þar sem hljóðupptökur voru ekki unnar við kjöraðstæður. Undir venjulegum kringumstæðum er töluvert mikið af fólki sem vinnur við þennan hluta ef um væri að ræða eðlilega framleiðslu.
„Þar sem við höfum verið með takmarkað fjármagn á milli handana er einn maður að vinna við eftirvinnsluna, þannig að það tekur dágóðan tíma.“ Sagði Marteinn en hann hefur fjármagnað gerð myndarinnar að mestu leyti sjálfur með aðstoð frá ættingjum og vinum.
Það sér loks fyrir endann á verkefninu en Marteinn vonast til að myndin verði klár í lok ágúst. Til stendur að koma myndinni inn á svokallaðar Horror Fest kvikmyndahátíðir sem haldnar eru í október. Þannig hátíðir eru haldnar víða t.d. í Edenborg, Toronto og New York. Þá er einnig stór hátíð í Suður Kóreu þar sem markaður fyrir svona myndir er gríðar stór.
Hægt er að fylgjast með framvindu verksins á Facebook síðu myndarinnar.