Nýjast á Local Suðurnes

Vinna með verktaka að lausn á sláttumálum

Bæjarráð Reykjanesbæjar fundaði í morgun. Aðeins eitt mál var á dagskrá á fundinum, en það snýr að slætti á opnum væðum í sveitarfélaginu. Töluvert hefur borið óánægu með sláttinn í sumar og hafa íbúar verið nokkuð duglegir við að bera kvartanir sínar fram á samfélagsmiðlum.

Eftir því sem Local Suðurnes kemst næst munu ástæður fyrir frekar slappri umhirðu grassvæða vera ýmsar, og svo virðist sem bæði sveitarfélagið og verktakinn, Garðlist, eigi nokkra sök. Þannig mun samningur á milli aðila kveða á um að aðeins slegið fjórum sinnum yfir sumarið á helstu svæðum og sjaldnar á sumum. Sá háttur mun hafa verið hafður á um nokkurra ára skeið vegna fjárhagserfiðleika sveitarfélagsins. Annað atriði sem rætt var í samtölum við blaðamann er að tæki verktakans hafi verið rangt stillt miðað við verksamning, en búið mun vera að ráða bót á því. Þá mun eitthvað hafa verið um að vinna verktakans á hverju svæði fyrir sig hafi ekki verið samrýmd, það er að segja að ekki hafi verið slegið með dráttarvélum og sláttuorfum samtímis og að tilfallandi úrgangur hafi ekki verið hreinsaður upp samdægurs.

Líkt og áður segir er einungis slegið fjórum sinnum á ári á helstu svæðum, en eftir því sem næst verður komist munu önnur sveitarfélög slá allt að tíu sinnum yfir sumarið og jafnvel oftar á þeim svæðum sem mest eru áberandi.

Bæjarstjóra var falið að vinna áfram í málinu í samráði við verktakann, en samningurinn er til þriggja ára og hljóðar upp á vel á fjórða tug milljóna króna.