Nýjast á Local Suðurnes

Heimavellir kynna “nýja nálgun” á skuld við Kadeco

Stærsta leigufélag landsins, Heimavellir, vinnur með stjórnendum Kadeco, Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, að fjárhagslegri endurskipulagningu Háskólavalla, og að nýrri nálgun á skuldamálum félagsins.

Þetta kemur fram í fundargerðum Kadeco, en Sigurður Harðarson frá Heimavöllum kynnti málin fyrir stórn Kadeco, sem fól framkvæmdastjóra félagsins að vinna þau áfram. Hvorki framkvæmdastjóri né stjórnarformaður Kadeco svöruðu fyrirspurnum Suðurnes.net vegna málsins og ekki náðist í stjórnendur Heimavalla til að fá svör við í hverju “ný nálgun á skuld við félagið,” eins og það er orðað í fundargerðum fælist.

Heimavellir keyptu sem kunnugt er um 700 íbúðir á Ásbrú og komst fyrirtækið í fréttir fyrir að hækka leigu áður en fyrsta greiðsla barst fyrir eignirnar. Þá hefur félagið hagnast gríðarlega frá því kaupin gengu í gegn. Kaupverð eignanna var ekki gefið upp en félagið vann að fjármögnun með skuldabréfaútgáfu í Kauphöll Íslands, sem virðist hafa dregist á langinn.