Nýjast á Local Suðurnes

Rannsaka sakamál í Fjölbrautaskóla Suðurnesja

Fjölbrautaskóli Suðurnesja býður nemendum sem lokið hafa líffræðiáföngum upp á skemmtileg námskeið, þar sem nemendur nota þekkingu sína úr mismunandi greinum raunvísinda til þess að rannsaka og freista þess að leysa sakamál.

Námskeiðið, sem ber nafn með réttu, CSI 1036, byggir á hópavinnu og skiptist upp í stuttar lotur, sem standa í eina til tvær vikur, þar sem hver lota fjallar um ákveðna glæpasögu. Nemendur nota þekkingu sína og aðferðir úr mismunandi greinum raunvísinda til þess að leysa ráðgátu sögunnar.

Í lýsingu á námskeiðinu segir að kennarar sjái um að leggja fram glæpasögurnar með vísbendingum eða sönnunargögnum og að nemendur noti þekkingu úr grunnáföngum í líffræði, efnafræði og eðlisfræði til að komast að lausn gátunnar, eða finna sökudólginn. Nemendur þurfa að túlka vísbendingar, rannsaka gögn, taka sýni af þeim sem liggja undir grun og gera tilraunir.