Nýjast á Local Suðurnes

Reglur koma í veg fyrir að hægt sé að styrkja afreksíþróttafólk í undirbúningi fyrir ÓL

Íþrótta- og tómstundaráð Reykjanesbæjar getur ekki orðið við erindi þriggja afreksmanna í sundi sem sóttu um styrki vegna undirbúnings fyrir Evrópu- og Ólympíumót. Erindinu var hafnað þar sem æfingaferðir falla ekki undir reglur sjóðsins.

Sundráð ÍRB sótti um styrk fyrir hönd þeirra Más Gunnarssonar, Karenar Mistar Arngeirsdóttur og Evu Margrétar Falsdóttur til að standa undir æfingaferð þar sem þau eru að undirbúa sig undir stórmót. Öll eru þau að undirbúa sig fyrir Evrópumeistaramót í 50 metra laug og keppni á Ólympíuleikum. Í styrkbeiðninni kemur fram að þátttaka og undirbúningur fyrir stórmót sé afar fjárfrekur.

Már Gunnarsson verður að teljast afar líklegur til árangurs á Evrópumeistaramótinu og á Ólympíuleikum fatlaðra, en hann hefur verið í frábæru formi að undanförnu, setti alls 28 Íslandsmet á síðasta ári og synti þrívegis undir gildandi heimsmeti á ÍM25 í Ásvallalaug. Þá voru þau Karen Mist og Már kjörin Íþróttafólk Reykjanesbæjar 2019, Már var kjörinn Íþróttamaður fatlaðra auk þess sem honum var veitt Kærleikskúla Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra.

 

Ómar Jóhannsson, formaður sundráðs ÍRB, segir í samtali við Fréttablaðið að synjunin sé vissulega vonbrigði því það sé vilji til að gera vel við afreksfólk á Ólympíuári.

„Þetta eru sterkir sundmenn og eru að vinna til verðlauna og gera frábæra hluti. Okkur langaði að fara þessa ferð því árangur kostar sitt.“