Nýjast á Local Suðurnes

Leoncie í tónleikaferðalag um heiminn – Frumflytur nýjan slagara í lok maí

Söngkonan Leoncie mun ekki sitja auðum höndum næstu vikurnar, en hún mun halda tónleika í Kanada og á Englandi á næstunni. Tónleikaferðalagið hefst þó í Reykjavík þann 24. maí næstkomandi þegar Leoncie treður upp á Gullöldinni í Grafarvogi.

Frá þessu greinir söngkonan ástsæla á Fésbókarsíðu sinni, en þar kemur meðal annars fram að frumfluttur verði nýr slagari, Mr. Lusty, á tónleikunum í Grafarvogi, auk þess sem vígð verði glæný dress sem voru keypt sérstaklega fyrir þessa tónleika.

Leoncie mun ekki valda aðdáendum sínum vonbrigðum því prinsessan Indverska mun auk þess sem á ofan er minnst árita og selja áður útgefna geisladiska sína.

Slagarinn Teenage Boy in Town verður án efa tekinn oftar en einu sinni á tónleikum söngkonunnar, enda eitt vinsælasta lagið sem hún hefur sent frá sér. Myndbandið má finna hér fyrir neðan, en tæplega 180.000 aðdáendur söngkonunnar hafa hlustað á lagið á efnisveitunni Youtube.