Nýjast á Local Suðurnes

Mikill metnaður í dagskrá Menningarviku Grindavíkur

Menningarvika Grindavíkur verður nú haldin í áttunda sinn og að vanda hefur mikill metnaður verið lagður í dagskrána og líklega aldrei meiri en núna. Menningarvikan verður haldin 12.-20. mars n.k. þannig að Safnahelgin er einnig hluti af henni og verður ókeypis aðgangur í Kvikunni. Undirbúningur er á lokastigi, m.a. er búið að velja Bæjarlistamann Grindavíkur, undirbúa fjölmörg námskeið í febrúar, mars og apríl og bóka ýmsa viðburði í Menningarvikunni sjálfri og þá verður stór og mikil Handverkshátíð í Gjánni. Fjölbreytileikinn væri í hávegum í ár.

Dagskrá Menningarvikunnar var birt í gær á heimasíðu bæjarins, í Járngerði sem dreift verður í öll hús í lok vikunnar í nýja GrindavíkurAppinu sem einnig var kynnt í gær.

Menningarvikunni hefur vaxið ásmegin og viðburðir hafa aldrei verið fleiri en í ár. Á meðal tónleika sem búið er að bóka er hópur tónlistarfólks í Grindavík undir stjórn Sólnýjar Pálsdóttur sem ætlar að spila klassísk rokklög, á meðal flytjenda eru Ellert Heiðar Jóhannsson úr The Voice og Bergur Ingólfsson leikari.

 

Rétt er að minna á Handverkshátíð í Gjánni sem verður í Menningarvikunni, sunnudaginn 13. mars en þar verður að finna rjómann af grindvísku handverki, í sem víðasta skilningi þess orðs, auk þess sem aðilar víðar á Reykjanesinu munu sýna og selja handverk sitt.

Nánari upplýsingar um Menningarvikuna er að finna á heimasíðu Grindavíkurbæjar.