Handtekinn með amfetamín í sokknum og lyf á víð og dreif um heimilið

Nokkurt magn af fíkniefnum fannst við húsleit sem lögreglan á Suðurnesjum gerði í íbúðarhúsnæði í Reykjanesbæ í gærkvöld, að fenginni heimild. Um var að ræða meint amfetamín, MDMA og svo lyf sem fundust á víð og dreif í íbúðinni.
Forsaga málsins var sú að lögregla hafði handtekið húsráðandann áður vegna annars máls og var hann með meint amfetamín í öðrum sokknum þegar hann var færður á lögreglustöð. Hann afsalaði sér til eyðingar hjá lögreglu tveimur neyðarblysum sem hann var með á sér þegar hann var handtekinn.
Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-500. Í hann má hringja til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.