Máttu ekki fjarlægja númeralausa bifreið af einkalóð

Umboðsmaður Alþingis hefur úrskurðað að ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja um að fjarlægja númerslausa bifreið af einkalóð hafi ekki verið í samræmi við lög.
Í úrskurðinum er farið yfir málavexti og segir þar að Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hafði látið fjarlægja númerslausa bifreið af einkalóð í kjölfar þess að tilkynning var límd á rúðu bílsins. Eigandinn kvaðst ekki hafa vitað af þessum fyrirætlunum og tilkynnti lögreglu að bílnum hefði verið stolið þegar í ljós kom að hann var horfinn úr stæði fyrir utan heimili hans.
Í áliti umboðsmanns segir að gengið sé út frá því að heilbrigðisyfirvöld, sem hafi heimildir til að fjarlægja lausamuni eins og númerslausar bifreiðar á almannafæri, geri slíkt að undangenginni viðvörun. Slíkar heimildir leysi stjórnvöld þó ekki undan því að fylgja reglum stjórnsýsluréttar við meðferð slíkra mála og taka mið af aðstæðum hverju sinni þannig að meðalhófs sé gætt.