Nýjast á Local Suðurnes

Uppfært: Átti að beita Flugakademíu Keilis dagssektum vegna verðskrár

Í tilefni ábendinga frá neytendum sendi Neytendastofa Keili, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs ehf. bréf, dags. 14. október 2014, þar sem athugasemdir voru gerðar við að verðskrá Flugakademíu Keilis á vefsíðu félagsins, keilir.net, væri eingöngu sett fram í evrum.

Keilir óskaði í framhaldinu eftir að fá að gefa upp bæði verð í evrum og íslenskum krónum með vefhlekkjum á myntbreytingarvefsíðu. Þannig taldi Keilir sig leysa vandann við að verðin taki hverju sinni mið af gengi evru gagnvart krónu. Þessu hafnaði Neytendastofa, og gerði Keili að greiða 50.000 krónur á dag í sektir þar til verðskránni yrði breytt.

“Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífsins ehf., skal innan tveggja vikna frá dagsetningu þessarar ákvörðunar gera viðeigandi úrbætur á vefsíðunni. Verði það ekki gert innan tilskilins tíma skal félagið greiða dagsektir að fjárhæð 50.000 kr. (fimmtíuþúsundkrónur) á dag þar til farið hefur verið að ákvörðun Neytendastofu.“ Segir í úrskurðinum.

Uppfært 1.10 kl. 17.04

Eftir ákvörðun Neytendastofu breytti Keilir verðskrá sinni á heimsíðunni þannig að nú eru föst verð gefin upp í íslenskum krónum og evrum. Þessi breyting er fullnægjandi að mati Neytendastofu. Reglur Neytendastofu kveða á um að ef fullnægjandi breytingar að mati stofnunarinnar eru gerðar innan tveggja vikna fellur ákvörðun úr gildi.

Matthildur Sveinsdóttir sérfræðingur á neytendaréttarsviði Neytendastofu sagði í samtali við Local Suðurnes að frétt miðilsins frá því í gær væri efnislega rétt þrátt fyrir að Keilir hafi farið að tilmælunum. Hún staðfesti jafnframt að Keilir hafi brugðist við ákvörðuninni innan tveggja vikna frestsins og því hafi ekki komið til þess að dagsektum yrði beitt.