Nýjast á Local Suðurnes

Lífeyrissjóðir og Íbúðalánasjóður samþykktu ekki samningsdrög Reykjanesbæjar

Allir kröfuhafar, nema lífeyrissjóðir og Íbúðalánasjóður, samþykktu drög að samningum um niðurfellingu skulda sem Reykjanesbær hafði lagt til, samningsdrögin sem samþykkt voru í bæjarráði þann 8. apríl síðastliðinn fólu í sér afskriftir upp á 6.350 milljónir króna. Óveðtryggðir kröfuhafar áttu að afskrifa um 50 prósent en veðtryggðir kröfuhafar og leigusalar áttu að afskrifa 24,4 prósent af sínum kröfum.

Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar segir við Fréttablaðið að lífeyrissjóðir og Íbúða­lánasjóður hafi neitað samningsdrögum sem bærinn hafði lagt til.

„Við sjáum enga leið til þess að ná samkomulagi við lífeyrissjóðina,“ segir hann.

Þá segir Friðjón að lífeyrissjóðirnir hafi farið fram á að reglum um skuldaviðmið verði breytt þannig að Reykjanesbær þurfi ekki að koma skuldaviðmiði sínu niður í 150 prósent fyrir árið 2022 líkt og lög geri ráð fyrir. „Við ráðum bara ekki við það, þeir verða að semja við ríkið um það“ segir Friðjón.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar býst við því að meirihluti bæjarstjórnar samþykki tillögu bæjarráðs um að óska eftir því við innanríkisráðuneytið að skipuð verða fjárhaldsstjórn yfir sveitarfélaginu. Hann segir við RÚV.is að kröfuhafar hafi ekki viljað semja um afskriftir og því sé þetta eina leiðin sem sé fær.

„Við erum búin að reyna þetta í 18 mánuði og eins og lögin kveða á um að ef okkur tekst þetta ekki þá ber okkur að óska eftir skipan fjárhagsstjórnar og við erum einfaldlega að fylgja þeim lögum sem sveitarfélögum ber að fara eftir, þetta er alveg skýrt.“

Að óbreyttu mun bæjarstjórn taka ákvörðun um um það hvort óskað verði eftir því að skipuð verði fjárhaldsstjórn yfir sveitarfélaginu þann 19. apríl næstkomandi.