Silja Dögg hefur áhyggjur: “Við erum ekki tilbúin til að fara í kosningar”
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segir flokkinn ekki reiðubúinn í kosningar á næsta ári, fari ekki að draga til tíðinda í einu af stærri kosningaloforðum flokksins fyrir síðustu kosningar sem var um að afnema verðtrygginguna eða draga úr vægi hennar.
Silja Dögg var gestur í útvarpsþættinum Sprengisandi um helgina þar sem hún ræddi um skýrslu starfshóps um verðtrygginguna sem lögð var fram árið 2014 um mögulegar leiðir til afnáms verðtryggingar, eða til að draga úr vægi hennar – Að sögn Silju Daggar er málið enn á borði fjármálaráðuneytisins og hefur flokkurinn ekki fengið neitt í hendurnar sem tengist málinu.
Athyglisvert: Framsókn er ekki klár í kosningar en ert þú klár í veturinn?
„Við höfum mjög miklar áhyggjur í okkar þingflokki, ég get alveg sagt ykkur það, af því að það sé ekkert komið fram úr fjármálaráðuneytinu. Þar er verkefnið að draga úr vægi verðtryggingar, eða afnema hana, út frá þessari skýrslu sem unnin var á sínum tíma, sem margir þekkja og við erum ekki búin að fá neitt í hendurnar. Það er rúmt ár í kosningar sem er stuttur tími í pólitík. Við erum ekki tilbúin til að fara í kosningar aftur án þess að hafa komið með neitt fyrir kjósendur um þetta, ég get bara fullyrt það.“ Sagði Silja Dögg meðal annars í þættinum.