Nýjast á Local Suðurnes

Flugvél Icelandair hætti við lendingu þar sem önnur flugvél var á brautinni

Mynd: Icelandair

Flugvél Icelandair þurfti skyndilega að hætta við lendingu á Keflavíkurflugvelli í gær eftir að í ljós kom að önnur vél var á brautinni. Vélin, sem var að koma frá Kaupmannahöfn var í aðflugi að flugvellinum þegar hún þurfti að hækka flugið aftur.

Engin hætta var þó á ferðum, að sögn Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa Isavia þar sem hin flugvélin var í hinum enda flugbrautarinnar, en lengri tíma tók að koma henni út af brautinni en áætlað var.

„Það er bara hluti af starfi flugumferðarstjóra að teygja á tímanum sem næsta vél kemur inn og var flugstjórinn því beðinn um að taka aukahring. Það er mjög stuttur tími á milli véla þegar mest er að gera, en öllum ítrustu reglum var fylgt, eins og alltaf,“ segir Guðni í samtali við Vísi.