Nýjast á Local Suðurnes

Fjárlagafrumvarp 2018: Ekki lögð áhersla á framkvæmdir á Reykjanesbraut

Gert er ráð fyrir að tæplega 18 milljarðar króna fari í framkvæmdir og viðhald vega, í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2018, sem lagt var fram í dag. Meðal stærstu verkefna verða Dýrafjarðargöng, nýr kafli hringvegarins í Berufjarðarbotni og ný Vestmannaeyjaferja.

Samkvæmt gildandi samgönguáætlun er ekki gert ráð fyrir að farið verði í framkvæmdir á Reykjanesbraut fyrr en árið 2019, utan þess að tengja hringtorg á Fitjum við Hafnarveg, en um 100 milljónir króna hafa verið eyrnamerktar þeim framkvæmdum á samgönguáætlun fyrir árið 2018.

Á árunum 2019 – 2022 verða settir 3,5 milljarðar króna í framkvæmdir frá Fitjum að Flugstöð Leifs Eiríkssonar og 5,3 milljarðar króna í framkvæmdir sunnan Hafnarfjarðar. Alls stendur því til að setja 9,8 milljarða króna í framkvæmdir á Reykjanesbraut á næstu árum. Rétt er að taka fram að samgönguáætlun 2019-2022 er enn í vinnslu sem þingsályktunartillaga og hefur ekki enn verið samþykkt af Alþingi.

Þá er, í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2018, gert ráð fyrir auknum útgjöldum til vegamála sem gætu numið 1,2 ma.kr. Um er að ræða viðbótarfjármagn vegna brýnna framkvæmda sem ekki var gert ráð fyrir í forsendum fjárlaga. Þar á meðal eru framkvæmdir vegna fjölgunar ferðamanna og vaxandi álags á þjóðvegum landsins, sem eiga að stuðla að bættu umferðaröryggi.

Af tæplega 18 milljarða króna framlagi til stofnframkvæmda er um 66% þegar bundin á grundvelli verksamninga og ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að veita viðbótarfé, 1,2 ma.kr, til vegaframkvæmda á árinu 2017. Á grundvelli þeirrar ákvörðunar er unnt að bjóða út eftirfarandi verk: Hringvegur/Hornafjarðarfljót, Hringvegur/Berufjarðarbotn, Vestfjarðarvegur/Gufudalssveit, Uxahryggjavegur, Kjósarskarð, Dettifossvegur og Snæfellsnesvegur/Skógarströnd.