Nýjast á Local Suðurnes

Stefnt að uppbyggingu miðlægs íþróttasvæðis – Framkvæmdir hefjist á næsta ári

Íþrótta- og tómstundaráð Reykjanesbæjar leggur áherslu á að framkvæmdir við ný íþróttamannvirki fyrir allar deildir verði settar á fjárhagsáætlun á næstu árum. Mannvirkin yrðu staðsett við Afreksbraut, aftan við Reykjaneshöll.

Samkvæmt tillögu sem ráðgjafar Capacent unnu fyrir Reykjanesbæ myndu Körfuknattleiksdeildir Keflavíkur og Njarðvíkur notast við sama húsnæði og knattspyrnudeildirnar við sama völlinn á miðlægu íþróttasvæði. Þá er stefnt á byggingu fimleikahúss auk húsnæðis fyrir allar bardagaíþróttir, skotdeild, golfklúbb og lyftingadeild.

ÍT ráð leggur áherslu á að uppbygging á svæðinu hefjist á næsta ári með byggingu á fullbúnum gervigraskeppnisvelli fyrir Keflavík og Njarðvík með stúku sem rúmar um 2.000 manns.

Áætlunin sem ÍT ráð leggur til að farið verði eftir við uppbygginguna:

2019
• Unnið með niðurstöður Capacent og stillt upp þörfum íþróttafélaganna varðandi Afreksbraut
• Teiknað upp framtíðarsvæði við Afreksbraut í samstarfi við USK og ÍT ráð
• Áhersla lögð á að tengja hjóla- og göngustíga úr nærliggjandi hverfum

2020
• Hafist handa við byggingu á fullbúnum gervigraskeppnisvelli fyrir Keflavík og Njarðvík með stúku og búningaaðstöðu vestan Reykjaneshallar
• Ný áhaldageymsla við Reykjaneshöll

2021
• Hafist handa við hönnun á fjölnota íþróttahúsi við Afreksbraut sem staðsett verður á svæðinu milli æfingavalla Keflavíkur og Njarðvíkur í knattspyrnu. Í íþróttahúsinu verður keppnisvöllur fyrir körfuknattleiksdeildir Reykjanesbæjar, framtíðaraðstaða fyrir fimleikadeild og bardagaíþróttir, aðstaða fyrir skotdeild, lyftingar, golfklúbb ásamt félagsaðstöðu fyrir allar deildir

2022-2026
• Hafist handa við byggingu fjölnota íþróttahúss sem verður byggt í áföngum
• ÍT ráð leggur áherslu á að keppnishús fyrir körfuknattleik og aðstaða fyrir fimleikadeild verði byggð í fyrstu áföngum byggingarinnar

Fyrrgreindar tillögur verða unnar í samráði við aðalstjórnir beggja félaga og er íþrótta- og tómstundafulltrúa falið að boða formenn til fundar.