Leikskólabörn lásu 1217 bækur í lestrarátaki

Leikskólinn Krókur í Grindavík stóð fyrir lestrarátaki á meðal leikskólabarnanna frá 15. febrúar til og með 1. apríl. Lesnar voru 1217 bækur sem er aukning um 267 bækur á milli ára og af þessum 1217 bókum voru 112 af þeim erlendar bækur sem er einstaklega ánægjulegt en síðasta ár voru þær 70 talsins.
Við fengum góða gesti í heimsókn á meðan á lestrarátakinu stóð en til okkar komu erlendir foreldrar og eldri borgarar og lásu fyrir börnin. Segir á heimasíðu leikskólans.
Þá fóru börnin á eldri deildum í heimsókn á bókasafnið og elsti árgangurinn fór og hlustaði á Kristínu Margréti Kristmannsdóttur lesa bók sína Vikkala Sól og hamingjukrúsin en hún er um stúlku með stórt hjarta.
Vinsælasta bókin þetta árið var Taskan hennar Dóru og fast á eftir henni komu bækurnar um Krakkana í Kátugötu.
Áhugavert er að segja frá því að búið er að rannsaka erlendis tengsl á milli bókafjölda á heimilum barna og hvar þau standa í málþroska við 11 ára aldur og er hægt að sjá niðurstöður í töflunni hér fyrir neðan.
Fjöldi bóka á heimilinu | Staða 11 ára barna miðað við jafnaldra |
0-10 | 12,2 mánuðum á eftir |
11-25 | 4,7 mánuðum á eftir |
26-100 | 0 mánuðum á eftir/undan |
101-200 | 5,2 mánuðum á undan |
201-500 | 8,9 mánuðum á undan |
Fleiri en 500 | 13 mánuðum á undan |