Nýjast á Local Suðurnes

Vilja leggja hjólastíg á milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar

Fjór­tán þing­menn hafa lagt fram til­lögu til þings­álykt­un­ar á Alþingi þess efn­is að skipaður verði starfs­hópur um gerð hjóla­leiðar milli Reykja­vík­ur og Flug­stöðvar Leifs Ei­ríks­son­ar. Í tillögunni kemur fram að á milli þeirra Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar séu engar náttúrulegar hindranir og að leiðin sé á láglendi og því séu allar forsendur fyrir góðri hjólreiðatengingu milli svæðanna.

Lagt er til að farið verði eft­ir gamla Kefla­vík­ur­veg­in­um og Vatns­leysu­strand­ar­vegi. Mal­bik verði lagt á þá hluta leiðar­inn­ar sem í dag séu mal­ar­veg­ir, nýir stíg­ar lagðir á þar sem það sé nauðsyn­legt og leiðin verði merkt með veg­vís­um og -merk­ing­um. Ekki er talið hentugt að fara meðfram Reykjanesbraut meðal annars vegna um­ferðarþunga og um­ferðar­hraða um hana.

Þessi út­gáfa myndi kosta rúm­ar 327 millj­ón­ir króna miðað við verðlag árs­ins 2014. Fyrsti flutn­ings­maður er Pawel Bartoszek, varaþingmaður Viðreisn­ar en meðflutn­ings­menn koma úr öllum flokkum utan Framsóknarflokks, en á meðal þeirra sem flytja tillöguna ásamt Pawel eru Suðurnesjaþingmennirnir Ásmundur Friðriksson, Birgir Þórarinsson og Oddný G. Harðardóttir.