Nýjast á Local Suðurnes

Ekki aukagreiðslur til kennara – “Forgangsröðum sömu upphæð í að bæta starfsumhverfið”

Málefnasamningur nýs meirihluta Samfylkingar, Framsóknarflokks og Beinnar leiðar var kynntur í Duus-húsum í dag. Fyrsti fundur nýrrar bæjarstjórnar verður síðan haldinn þann 19. júní næstkomandi.

Framsóknarflokkurinn lagði áherslu á launamál kennara í kosningabaráttu sinni og var eitt af stefnumálum flokksins að tryggja háskólamenntuðum kennurum aukagreiðslur árlega gegn því að þeir héldust við störf. Frá þessu hefur verið horfið í hinum nýja málefnasamningi.

Jóhann Friðrik Friðriksson, oddviti Framsóknarflokks, sagði í samtali við Suðurnes.net að flokkurinn hefði gjarna viljað ná öllu sínu í gegn, en að í svona viðræðum yrðu allir að gefa eftir. Sömu upphæð yrði þó varið í að koma til móts við aukið álag meðal annars með því að bæta starfsumhverfi kennara.

“Við vorum eina framboðið sem setti álag á kennara á oddinn, forgangsröðum sömu upphæð í að bæta starfsumhverfi þeirra og koma á móts við aukið álag. Það finnst okkur góð útkoma.” Sagði Jóhann Friðrik.

Í málefnasamningnum segir að unnið verði að sóknarsamningi í menntamálum. Við gerð fjárhagsáætlana á kjörtímabilinu verði sérstakt mið tekið af auknu álagi á starfsfólk í leik- og grunnskólum. Fjármunum verði forgangsraðað árlega til málaflokksins sem nemur 3% af núverandi útgjöldum til að mæta auknu álagi og bæta starfsumhverfi starfsfólks í skólum.