Fylgjast náið með dýralífi á Keflavíkurflugvelli – Fjórtán árekstrar við fugla á síðasta ári
Fjórtán árekstrar flugvéla og fugla voru skráðir á Keflavíkurflugvelli á síðasta ári, en Isavia hefur í áraraðir fylgst mjög vel með dýralífi innan flugvallasvæða og greint nánasta umhverfi flugvalla með tilliti til ásóknar dýra og fugla.
Isavia skráir alla árekstra fugla og annarra villtra dýra við flugvélar á flugvöllum landsins. Á Keflavíkurflugvelli voru skráðir 14 árekstrar fugla á síðastliðnu ári og 22 árekstrar á innanlandsflugvöllum. Nánar má lesa um lífríki innan flugvallasvæða og fræðast um skráningar á villtum dýrum á heimasíðu Isavia.
Þetta kemur fram í ársskýrslu Isavia, sem birt var á dögunum, en þar má finna ýmsa tölfræði sem tengist starfsemi fyrirtækisins. Þar kemur einnig fram að ásókn villtra dýra sé mjög mismunandi eftir stöðum enda gróðurfar og fæðuframboð mismunandi. Mikilsvert starf fer fram á flugvöllum til að minnka líkur á árekstri dýra og flugvéla, til dæmis með fælingu og búsvæðastjórnun.